er - Hausmynd

er

Þriðjudagsþankar: Að vera eða vera ekki ... Agile

Á verönd í norðanverðri Madrid í gærkvöldi lenti ég í athygliverðri umræðu um verkefnastjórnun í hugbúnaðargerð. Þeir sem þekkja mig vita að ég hef afskaplega sterkar skoðanir og það þarf lítið til að hita mig upp í umræðu um þau mál :) Í framhaldi af því ákvað ég að krota niður í skraf, nokkra punkta sem taka saman skoðanir mínar á þessum málum.

Að "vona" að hugbúnaðargerðin batni
Það sem mér finnst stóri punkturinn í þessum málum þessa dagana, er nokkurs konar "rót í myrkri" að aðferðarfræði sem reddar hugbúnaðargerðinni. Menn kaupa ráðgjöf, námskeið og vottun í Agile (Scrum eða annað) hugmyndafræði fyrir mikla peninga, og ætla með því að bjarga, eða minnsta kosti bæta aðeins, afleita áætlanagerð og ótryggan hugbúnað.

En reddar Agile málunum?
Ég þarf kannski ekki að taka það fram að ég er mikill Agile maður. Ég held að eina leiðin til að framleiða ákveðnar tegundir af hugbúnaði sé að styðjast við þær leiðbeiningar sem settar eru fram í hinum og þessum skjalsettum afbrigðum Agile.

Hins vegar, dettur mér ekki í hug eitt augnablik að Agile fræðsla reddi afleitri hugbúnaðarþróun ... aldrei! Hugbúnaðargerð byggist auðvitað alltaf á kláru fólki og samstilltum hóp. Ef fyrirtæki er ekki svo heppið að hafa þéttan hóp af afburða fólki, er kannski langsótt að bæta hugbúnaðargerðina með öðru en að skipta út fólkinu eða fræða það.

Fræðslan sem tengist Agile innleiðingu er alltaf til góða, en hún breytir ekki því fólki sem vinnur við þróunina nema að litlu leyti. Agile þjálfun er eins og margt annað .... rusl-inn ... rusl-út. Ef forritari eða verkefnastjóri hefur ekki aga til forrita eða stýra hugbúnaðarverkefni fyrir Agile innleiðingu, þá hefur viðkomandi ekki aga til þess að nýta þau tækifæri sem Agile umgjörð leggur til.

Agi
Agi og sjálfstraust eru lykilorð. Ég held að þeir séu vandfundnir leiðtogar (ég forðast viljandi að kalla þá verkefnastjóra) sem hafa sjálfstraust til að leiða verkefni gagnvart kúnnanum og eru líka nógu sterkir tæknilega til að skipuleggja verkefnið og fylgja því eftir með þeim aga sem þarf til. Oft verða bestu forritararnir verkefnastjórar af því þeir eru alla vega alveg pottþéttir á einni hlið málins. Ég leyfi mér að fullyrða að verðmæti þess þegar góðir hugbúnaðarleiðtogar eru til staðar í verkefni, er stórlega vanmetið.

Þeir sem hafa ekki þessa vandfundnu leiðtoga, verða í það minnsta að hafa umgjörð sem styður þróunina í átt til aga. Umgjörð hugbúnaðarþróunarinnar verður að vera skýr og gagnsæ fyrir alla aðila og hjálpa bæði verkefnastjórum og forriturum að skilja stöðu verkefnisins á hverju stigi, og skilja enn betur til hvers er ætlast í næsta skref.

Scrum
Þarna komum við að því af hverju Agile reddar ekki málunum. Þegar menn gefast upp á að koma upp umhverfi sem styður aga í hugbúnaðargerð, þá flýja þeir unnvörpum í faðm Agile. Þeir kaupa námskeið og þjálfun, helst í Scrum. Það er gott að geta sagst vera Agile. Það er gott að geta sagst vera með alvöru hugbúnaðargerð, það er gott að fá smá sjálfstraust, gott að vera vottaður … 

En hvað er Scrum? Scrum er eiginlega frekar almenn stjórnunarkennig sem hefur alla möguleika til að styðja við aga í hugbúnaðargerð. Úr kassanum, er Scrum ekki mikið meira en von um betri tíð, sem er kannski ástæða þess að þetta selst vel til stjórnenda, betur en aðrar kenningar sem eru með innbyggðar “engineering practices”. Scrum er samansafn af almennum fræðum, mjög góðum grundvallarreglum sem erfitt er að vera ósammála, en inniheldur litlar nákvæmar upplýsingar um hvernig á að innleiða hlutina. Af því leiðir að Scrum er fín byrjun til að kynna pælinguna án þess að styggja nokkurn mann.

Það er ekki fyrr en menn læra að nýta pælingarnar og innleiða þann mikla aga sem fylgir alvöru Agile hugbúnaðarþróun, að fer að reyna á. Það er ekki fyrr en menn fara að steypa hugbúnaðargerðina í ákveðið form að breytingastjórnunin fer að verða erfið … og skila árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband