Á morgun kemur hrunskýrslan. Þar verður fært í letur margt það sem við vitum nú þegar. Stjórnmálamenn flutu sofandi að feigðarósi, ráðherrar voru blindaðir af ævintýraljóma útrásarvíkinga, eftirlitsstofnanir voru máttlausar og meira hluti af markaðsdeild útrásarinnar heldur en nokkurn tímann eftirlitsstofnun. Útrásarvíkingarnir frömdu hvert bankaránið á eftir öðru og við erum enn öll hálfpartinn þrælar þeirra.
Breytir skýrslan einhverju um brýnustu verkefni þjóðarinnar á þessum tímapunkti?
Nei, engu. Nákvæmlega engu.
Skýrslan er sagnfræði og verður skyldulestur fyrir þá sem setjast í ábyrgðarstöður og mikilvæg heimild til að forðast svona pytti í framtíðinnni. Hún kemur eflaust til að bæta einhverjum ávirðingum við það sem við vitum, en hún breytir ekki fortíðinni. Hún breytir því ekki hver eru brýnustu verkefni þjóðarinnar í dag.
Búið er að grafa pólitískar skotgrafir og allir frasabelgir landsins munu öskra á athygli næstu daga. Sjálfsskipaðir besservisserar munu rísa upp í hverju horni og fréttamenn munu eyða dýrmætum tíma í að fjalla um hvern krók og kima og rifja upp atburðarrásina síðustu 3-4 árin.
Ég ætla fyrir mitt leiti að einbeita mér að vinnu næstu daga og forðast að kveikja á fréttum og umræðuþáttum um skýrsluna. Ekkert sem sagt verður, mun auka líkurnar á því að mér takist að koma sprotafyrirtækinu mínu úr mold. Ekkert sem sagt verður, mun auka líkurnar á því að atvinnulausum fækki hér næstu vikunar. Ekkert sem sagt verður, mun lækka vexti flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta eða færa þessa þjóð nærri efnahagslegu sjálfstæði að nýju.
Góða skemmtun við lesturinn kæru landar og farið varlega í upphrópanirnar :)