27.11.2008 | 11:59
Af barnalegum populisma og spillingu í íslenskri pólitík
Bara til að forða misskilningi ... að þó ég hafi hér bloggað um kosningar, þá held ég að það sé fullkomlega fjarstæðukennt að halda þær strax. Vantrausttillaga stjórnarandstöðunnar er eitt það allra barnalegasta sem ég hef séð í pólitík lengi. Populismi af verstu sort. Ég held hins vegar að hægt væri að kaupa frið með því að boða til vorkosninga strax.
Kosningar eiga að vera í apríl eða maí, þá hafa allir hópar tækifæri til að safna liði og mynda ný framboð. Ég trúi ekki öðru en að það verði fjöldi framboða í gangi til hliðar við gamla fjórflokkinn. Það verður að mynda nýja kjölfestu í íslenskri pólitík, nýja kjölfestu sem er fullkomlega óháð þeim öflum sem nú sitja á þingi.
Vorkosningar gætu líka verið e-s konar millikosningar (þar sem sérfræðingastjórnin héldi áfram tímabundið um taumana), sem væru einungis hugsaðar til að koma í gegn stjórnarskrárbreytingum til breytinga á kosningakerfinu, svo að þjóðin geti kosið um tillögur að nýju kerfi sem þjónar fólkinu í landinu en ekki hreppapólitíkinni sem stjórnar öllu á þessu landi. Ég hef oft bloggað um hvernig kerfi ég vil sjá.
Um leið og boðað væri til kosninga, væri hægt að setja upp e-s konar bráðabirgða-sérfræðingastjórn í stað núverandi Ríkisstjórnar fram að kosningum. Það hefur ekkert með það að gera hvort Ríkisstjórnin hafi gert mistök í aðdraganda málsins, heldur einungis það að það fólk sem þar starfar er ekki hafið yfir allan vafa. Einungis sú staðreynd að Seðlabankastjóri hafi ekki verið látinn víkja, segir manni að það sé eitthvað "fishy" í gangi á bakvið tjöldin. Uppljóstranir Bjarna Harðarsonar um hvernig hlutirnir gerast bakvið tjöldin og "flokksmaskínurnar", svipta hulunni af gerspiltu umhverfi í íslenskri pólitík. Á þessu stigi snýst þetta ekki um sekt, heldur traust.
Ríkisstjórnin verður að víkja í heild sinni sem allra allra fyrst!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.